Björg Þorsteinsdóttir

Björg Þorsteinsdóttir er fædd í Reykjavík 1940. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1960 og teiknikennaraprófi frá Handíða- og myndlistaskóla Íslands árið 1964. Hún stundaði einnig nám í grafík við sama skóla, sótti tíma í teikningu og málun við Myndlistaskólann í Reykjavík í þrjú ár og var við nám við Staatliche Akademie der bildenden Künste í Stuttgart um skeið. Á árunum 1971-1973 var Björg styrkþegi frönsku ríkisstjórnarinnar og lagði stund á málmgrafík við "Atelier 17" hjá S.W. Hayter og steinþrykk við École Nationale Supérieure des Beaux Arts í París.

Í upphafi myndlistarferils síns málaði Björg einkum olíumálverk en á fyrstu einkasýningu sinni í Unuhúsi í Reykjavík 1971 sýndi hún þó eingöngu ætingar.Næstu ár á eftir fékkst Björg aðallega við grafik en í seinni tíð hefur hún lagt mesta rækt við málun. Á ferli sínum hefur hún málað, teiknað, unnið í grafík og gert collageverk. Hún hefur haldið yfir 30 einkasýningar og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra samsýninga í flestum löndum Evrópu, nokkrum löndum Asíu og Afríku, í Bandaríkjunum og Ástralíu.

Björg hefur verið stundakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík og var forstöðumaður Ásgrímssafns árin 1980-1984 Hún hefur einnig hlotið starfslaun úr Launasjóði myndlistarmanna. Björg hefur starfað að félagsmálum myndlistarmanna, átt sæti í stjórnum Félags íslenskra myndlistarmanna og Íslenskrar grafíkur, en hún tók þátt í endurreisn þess síðarnefnda árið 1969. Björg situr nú í fulltrúaráði Listasafns Sigurjóns Ólafssonar.

Verk Bjargar er að finna í opinberum söfnum og einkasöfnum hér heima og erlendis, m.a. í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Háskóla Íslands, Lista- og menningarsjóði Kópavogs, Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, Norræna húsinu í Reykjavík, Norðurlandahúsinu í Færeyjum, Trondhjems kunstforening og Museet for Internasjonal Samtidsgrafikk, Fredriksstad, Noregi, Norrköping og Södertälje Kommune, Svíþjóð, Nuuk í Grænlandi, Bibliothèque Nationale, París og Musée des Beaux Arts, Caen, Frakklandi, Museo Nacional de Grabado Contemperaneo, Madríd, Spáni, Museum of Contemporary Art, Skopje, Makedoníu, Museum of Art, Lodz, Póllandi og víðar.

Björg hefur verið gestalistamaður í vinnustofum í Cité Internationale des Arts, París og Villa Arson, Nice, Frakklandi; Ragdale Foundation, Lake Forest, Bandaríkjunum; Skandinvisk Forenings Kunstnerkollegium, Róm, Ítalíu, og Listamiðstöðinni Straumi við Hafnarfjörð.

Sumarið 2003 var Björg staðarlistamaður í Skálholti.

Helstu viðurkenningar: Viðurkenning (Honourable Mention) fyrir grafík á alþjóðlegri grafíksýningu í Entrevaux, Frakklandi, 1970. Verðlaun fyrir grafík á alþjóðlegri sýningu í París,1972. Verðlaun á alþjóðlegri grafíksýningu í Madrid, Spáni,.1976.  Viðurkenning (Diploma) fyrir vatnslitamyndir á alþjóðlegri vatnslitasýningu í Litháen árið 2004.