Borghildur Óskarsdóttir

Borghildur Óskarsdóttir myndlistarmaður, f. 11. ágúst 1942 í Reykjavík.
Menntun:

Sem barn var ég á námskeiðum í Myndlistaskólanum í Reykjavík. 17 ára fór ég í Myndlista og handíðaskóla Íslands sem þá var tveggja ára skóli. Áður en seinna árinu lauk var ég komin til Edinborgar og sótti kvöldskóla í The Edinburgh College of Art. Frá 1961- 63 stundaði ég fullt nám við þann skóla. Fyrra árið í almennri deild en seinna árið var ég gestanemandi og þá varð ég tíður gestur á mótunar- og keramikverkstæðunum skólans. Löngu seinna árið 1971 fór ég í kennaradeild Myndlista og handíðaskóli Íslands og lauk þaðan myndlistakennaraprófi 1973.

Starfsferill:

Ég kom heim frá Edinborg vorið 1964 og næstu árin prufaði ég mig áfram með ýmsan listiðnað; leirmótun, vefnað, batik-málun og saumaskap. Áhugi minn á listiðnaði á þessum tíma tengi ég róttækum straumum í þjóðfélaginu; 68 byltingunni, hippa-pólitík og kvennahreyfingunni. 29 ára gömul ákvað ég að fara aftur í nám og lauk myndlistakennaraprófi 1973. Ég kenndi við Hvassaleitisskóla í þrjú ár 1973-75 og við Myndlistaskólann í Reykjavík frá 1974-84. Um þetta leiti hreifst ég mjög af hugmyndalistinni og fannst fráleitt að einskorða mig við eitthvert hráefni, vildi að hugmyndin réði efnisvali og tækni. Ég kom mér upp verkstæði 1980 og fór að gera tilraunir með glerbrennslu í tengslum við leirinn. Á sama tíma og conceptið var aðalatriði í huga mér tóku miðlarnir; leirinn, glerið og brennsluofninn völdin og urðu um tíma farvegur hugmynda minna. Árið 1983 hélt ég mína fyrstu einkasýningu í Ásmundarsal, sýndi þar litlar myndir úr leir og gleri og steinum. Flest verkin voru einhvers konar sjálfsmyndir. Myndir af verkum frá þessari sýningu rötuðu í amerískt keramiktímarit og í framhaldinu var mér boðið að taka þátt í alþjóðlegu keramik symposium í Tennessee 1985. Eftir þetta og til ársins 1995 tók ég þátt í vinnu á hinum ýmsu verkstæðum í Evrópu og í Kanada. Rétt eftir 1980 eignaðist ég, meira fyrir tilviljun, stóran brennsluofn og í nokkur ár vann ég í samræmi við þetta ágæta tæki, stóra skúlptúra. Það var eins og leirinn sæktist eftir mér meira en ég eftir honum. Ég fór líka á þessum tíma að móta sérstök leirform til að bræða glerið í og útfrá þeim ferli þróuðust nýjar hugmyndir. Verk mín hafa verið af ýmsum stærðum og gerðum og tekið breytingum í gegnum tíðina. Ég hef unnið með mismunandi miðla og notað efni af ýmsu tagi. Undanfarin ár hef ég unnið með sögur forfeðra minna og ljósmyndað staði sem þeir tengjast, bókverk, sett upp sem hluti innsetningar. Einkasýningar mínar eru nú orðnar 12 og ég hef tekið þátt í fjölda samsýninga. Meðal verka á opinberum stöðum má nefna Stjörnusögur í Grafarvogslaug í Reykjavík (2003), Sumarhús við Rauðavatn, Reykjavík (2000), Náttúra á suðurströnd Reykjavíkur (1998). Minnisvarði um líf í Fossvogskirkjugarði (1995), Lagarfljótsormur í þjálfunarstöð á Egilsstöðum (1992), Svörtumið í Lögreglustöðinni í Reykjavík (1989), Tvíund í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði (1990), Á ferð (2) Hótel Loftleiðum í Reykjavík (1993).

Félagsstörf tengd myndlist: 
Í sýningarstjórn, Róskusýningar á vegum Menningarborgarinnar árið 200. Í sýningarstjórn Strandlengjunnar fyrir MHR 1996-98. Í stjórn MHR 1995-99 Í dómnefnd vegna útilistarverks á Seyðisfirði 1993. Í stjórn listskreytingasjóðs 1990-92. Í stjórn Myndlistaskólans í Reykjavík frá 1982-94. Félagi í: MHR Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og SÍM Sambandi íslenskra myndlistarmanna.