Harpa Rún Ólafsdóttir

Harpa Rún útskrifaðist með BA í Myndlist frá LHÍ árið 2005. Síðan þá hefur hún haldið fjölmargar sýningar hérlendis, bæði á eigin vegum og sem meðlimur listahópanna Muses,ÖÖ og Gallery Crymo. Hún hefur tekið þátt í sýningum, listahátíðum og hönnunarmessum í San Francisco, New York, Los Angeles, Mílanó, Helsinki, Kaupmannahöfn, Coventry og á Indlandi.  

Harpa Rún vinnur list sína í  teikningum, málverkum, innsetningum skúlptúrum og gjörningum. Verk hennar endurspegla súrrealíska blöndu af naivisma, erótík, dauða og feminisma. Teikningarnar  einkennast af þráhyggjukenndum endurtekningum, samhverfu og sterkum táknum sem Harpa fléttar saman til að skapa sinn heim innan verksins. Þetta er hennar tilraun til að lokka til sín áhorfendann, segja honum sögu sína og skilja hann eftir með sínar eigin spurningar.

 

Nýtt samstarf

Myndlistarkonurnar María Kjartans og Harpa Rún Ólafsdóttir útskrifuðust af myndlistarbraut LHÍ árið 2005. Þær eiga hvor um sig langan feril að baki í myndlistinni bæði hérlendis og erlendis en vinna nú saman í fyrsta sinn. Þær hófu samstarf í blönduðum miðli árið 2016 þar sem María fangar orku náttúrunnar í ljósmyndinni og Harpa Rún dregur hana svo fram myndrænt í teikningum sínum.

Sameiginlegur flötur listakvennanna liggur í leit þeirra að fanga hið óþekkta á mörkum raunveruleikans og endurskapa á tvívíðum fleti. Tilgangur samstarfsins er að draga myndrænt fram þá orku sem leynist í nátturunni og beina í leiðinni athyglinni að hinu viðkvæma og oft óþekkta sem leynist allt í kring um okkur. Verkefnið ber heitið Ótal andlit Iðunnar sem lýsir þeim öflum sem þær leitast við að beisla á myndfletinum. Með því að sjóða saman draumkenndar ljósmyndir Maríu af fólki og náttúru og súrrealískar teikningar Hörpu Rúnar tekst þeim að skapa áður óþekkta veröld innan þeirrar veraldar sem blasir við okkur í hversdagsleikanum. Verkin kallast skemmtilega á við þjóðsögur og ævintýri og hvetja áhorfandann til að upplifa umhverfi sitt á nýjan hátt.

 

Instagram harparun.art

facebook.com/madebyharpa

 

www.instagram.com/harparun.art