Inga Elín Kristinsdóttir

Inga Elín lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og að því loknu fór hún til náms í Skolen for Brugskunst í Kaupmannahöfn þaðan sem hún útskrifaðist árið 1988. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í mörgum samsýningum á Íslandi og erlendis. Inga Elín hefur hlotið ýmiskonar viðurkenningar fyrir verk sín, má þar nefna að árið 1988 hlaut hún Kunsthåndværkprisen af 1879 í Danmörku og árið 1997 var hún valin bæjarlistamaður Mosfellsbæjar, þar sem hún býr og starfar. Íslensku tónlistarverðlaunin s.l. tíu ár hafa verið hönnuð af Ingu Elínu. Fleiri hafa hrifist af verkum hennar því árið 2007 þegar breski tónlistarmaðurinn Elton John sótti Ísland heim keypti hann skál og skúlptúr af Ingu Elínu.

Inga Elín er félagsmaður í Leirlistafélagi Íslands og Sambandi íslenskra myndlistarmanna og sat í stjórn þess félags 2000-2002.

Inga Elín notar margskonar efni, s.s. postulín, leir, gler og steypu. Hún er einnig óhrædd við að tefla saman þessum efnum við gerð verka sinna sem eru annars vegar skúlptúrar og hins vegar ýmsir nytjahlutir s.s. skálar, kertastjakar, bollar, lampar eða annað. 

Um níu ára skeið rak Inga Elín eigið gallerí á Skólavörðustíg 5 en selur nú verk sín í Artóteki, galleríum og á vinnustofu sinni að Svöluhöfða 12 í Mosfellsbæ. 

Netfang Ingu Elínar er: ingaelin@hotmail.com