Ólöf Oddgeirsdóttir

Ólöf Oddgeirsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1953. Hún lauk námi frá málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1994. Nú stundar hún nám í listfræði við Háskóla Íslands.
Ólöf hefur meðal annars sýnt verk sín í Listasafni Reykjavíkur, Gerðarsafni og í Hafnarborg. Hún hefur verið einn af verkefnastjórum við alþjóðlega vinnusmiðju og staðið fyrir samsýningum í Þrúðvangi í Álafosskvos.
Ólöf hlaut listamannalaun árið 2002 og var heiðurslistamaður Mosfellsbæjar árið 2007. Samhliða myndlistinni hefur hún kennt vatnslitamálun á Reykjalundi í nokkur ár og olíumálun við Myndlistarskóla Mosfellsbæjar.
Myndlist Ólafar snýst um samband mannsins við umhverfi sitt og menningu. Hún hefur á ferli sínum kannað ýmsa snertifleti þar að lútandi, ýmist í samstarfi við aðra listamenn eða ein síns liðs. Í málverkum og teikningum tvinnast lífræn form saman við útsaums- og vefnaðarmynstur sem mörg hver byggja á táknum úr náttúrunni. Í verkunum kallast á ólíkar birtingarmyndir náttúrunnar sem vísa til eðlilegs ferils breytinga og endurnýunnar í meningarlegu og náttúrulegu tilliti.

Listaverk í Artóteki