Sigríður Ágústsdóttir

Ég hef unnið í leir í rúma þrjá áratugi og hef alltaf jafn gaman að því og er enn að uppgötva nýja fleti á leirnum. Undanfarin tíu til fimmtán ár hef ég eingöngu handmótað, þ.e.a.s. byggi verkin upp með svokallaðri pylsuaðferð þar sem lengjum af leir er raðað saman. Þetta er tímafrek aðferð en ákaflega gefandi og krefjandi. Ég nota ekki glerunga á verkin mín heldur málmoxíð sem gefa mér fallega náttúrlega tóna en helsti áhrifavaldur minn er íslensk náttúra, eins og flestra Íslendinga. Ég er líka svo lánsöm að verja flestum sumrum á ferðalagi um Ísland með erlenda ferðamenn.

Fyrstu árin mín eftir að ég lauk námi og flutti aftur heim stóð ég í fjöldaframleiðslu á leirmunum og seldi og ramleiddi. Þetta átti ekki vel við mig og því fór ég að kenna leirmótun og geri enn. Kennslan finnst mér ákaflega gefandi og skemmtileg og leyfir mér að gera það sem ég vil á vinnustofunnni minni, óháð afkomu!