Ólöf Oddgeirsdóttir

Ólöf Oddgeirsdóttir lauk námi frá málaradeild Myndlista og handíðaskóla Íslands árið 1994. Á árunum 2007-2010 stundað hún nám í listfræði við HÍ. Hún á að baki fjöld einkasýning og samsýninga, hérlendis og erlendis.

Viðfangsefni Ólafar hafa oft verið mynstur sem koma fyrir í útsaumi og vefnaði í bland við hin lífrænu form og mynstur náttúrunnar. Í málverkum og teikningum renna þau saman sem tákn um tímans rás, eyðingu, frjósemi og endurnýjun lífs.

Árið 2001 stóðu þær Anna Jóa fyrir sýningunni Sófamálverkið sem sýnt var í Listasafni Reykjavíkur og síðar á samsýningum East International í Norwich í Bretlandi árið 2002 og á sýningunni Nautn og notagildi í Listasafni Árnesinga árið 2012. Í framhaldi af því verki fóru þær á slóðir vestur íslendinga og unnu verkið Mæramerking sem sýnt var í Gallerí Skugga í Rvk. árið 2005.

Undanfarin 12 ár hefur Ólöf starfað með hópi myndlistarkvenna að sýningaröð tileinkaðri lýðveldi Íslands, og hafa sýningarnar fjallað um sjálsmynd lýðveldisins, fortíð þess og framtíð í ýmsum myndum. Hópurinn hefur staðið að fjölda sýninga á óhefðbundnum sýningastöðum víða um land.

Ólöf hefur lengst af búið og starfað að Álafossi í Mosfellsbæ og hefur staðið fyrir  myndlistarsýningum þar um árabil. Hún var valinn bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2007.