Aðalheiður Valgeirsdóttir

Aðalheiður lauk prófi úr grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1982 og stundar núna nám í listfræði við Háskóla Íslands. Aðalheiður hefur haldið 8 einkasýningar m.a. í Listasafni Kópavogs, Gerðarsafni árið 2001 og árið eftir í Hallgrímskirkju. Hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum víða um heim. Fyrstu árin eftir að námi lauk einbeitti Aðalheiður sér að grafík og teikningu en á síðustu árum hefur hún unnið jöfnum höndum við grafík og málverk. Um verkin sín segir Aðalheiður: ,,Verkin mín eru oftast á huglægum nótum og í þeim blandast saman náttúruvitund og óhlutbundinn veruleiki. Ég velti fyrir mér tilverunni og tíminn er sterkur þáttur. Tíminn er afstæður og óáþreifanlegur en samt mælanlegur. Ég nota mikið liti í verkunum en þau eru þó oft einlit með blæbrigðum og oft vinn ég myndraðir þar sem innbyrðis tengsl litanna eru mikilvæg og skapa heild." Aðalheiður hefur unnið að félagsmálum myndlistarmanna í SÍM og Íslenskri grafík. Hún hefur holtið styrki frá Myndstefi og menntamálaráðuneytinu; og verðlaun fyrir málverk á sýningunni Lilla Europa árið 2002 í Örebro í Svíþjóð.