Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir lærði myndlist í Ecole des Beaux Arts, Aix-en-Provence í Frakklandi og Myndlistarskóla Reykjavíkur. Einkasýningar Guðrúnar eru um tuttugu talsins, sú fyrsta árið 1995 í Listasafni Kópavogs. Árið 2010 hélt hún fjórar einkasýningar, þar af þrjár í Kína m.a. í sendiráði Íslands og eina í Bandaríkjunum í Luise Ross Gallery, Chelsea í New York. Guðrún hefur verið iðin við sýningarhald erlendis en hún hefur einnig sýnt alloft á Íslandi. Sýning hennar í Hafnarborg í Hafnarfirði árið 2009 mörgum í fersku minni en auk sjálfra verkanna leyfði hún gestum að skoða vinnuferlið, skissur, ljósmyndir og annað sem hún notar við vinnu sína. Guðrún hefur einnig verið sýningarstjóri, setið í stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna og í fleiri nefndum og ráðum.
Flest verka Guðrúnar tengjast veðri og landslagi og um þau skrifa Jón Proppé listfræðingur: 
 

VEÐURSKRIFT 

Guðrún Kristjánsdóttir hefur um árabil fágað og dýpkað nálgunina í málverkum sínum og úrvinnslu sína á landslaginu sem þau eru dregin útaf. Hún hefur fengist við flatarafstrakjónir úr landslagi, sökkt sér ofan í birtubrigði landsins í röð mynda þar sem sjóndeildarhringurinn, skil himins og lands eða hafflatar, er myndefnið og líka í myndum þar sem fjallshlíðarnar fóru að fylla upp í myndflötinn. Þær síðastnefndu hafa síðan breyst ört frá því að áhersla væri lögð á birtu og lit yfir í að skrá fleti í landslaginu, munstur snjóa við leysingar og skafla í vindsorfnum hlíðum. Úr þessu myndefni dregur Guðrún fram lifandi flöt og línu í hreyfingu sem er til vitnis um samspil hlíðar og veðurs. Klettar, gil, dalverpi og skriður eru flöturinn sem þessar myndir teiknast á og veðrið skilur eftir sig teikningu eða skrift í ójöfnunum. Í meðförum Guðrúnar framkallast þessi skrift og hún teflir henni fram í mismunandi efni sem hvert talar eftir sínum eiginleikum og dregur fram núansa í formteikningunni. Kannski má enn líta á málverkin sem ítarlegustu úrvinnsluna þar sem fletirnir spila við olíulit og striga  en Guðrún hefur líka unnið úr myndefninu í þrykk, myndbönd og með því að flytja formin ? veðurskriftina ? beint á vegg eða rúðu, með málningu eða útskorinni fólíu. Á þessari sýningu beitir hún öllum þessum aðferðum til að teikna fram heildstæða og umlykjandi mynd, eins konar umhverfi, þar sem áhorfandanum er sökkt inn í veröld þessara veðurskrifuðu forma. Þessi skrift verður að vísu ekki lesin eins og bók en krefst þó vissulega eins konar læsis sem felst einmitt í þeirri samþættingu náttúrupplifunar og afstrakt hugsunar sem Guðrún ræktar með sér og hjálpar okkur við skilja þegar við gaumgæfum verk hennar.
Jón Proppé