Skip to main content

Anna Hallin var gestanemandi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands veturinn 1988-1989. Árið 1990 útskrifaðist hún með MFA próf úr keramikdeild Háskólans í Gautaborg í Svíþjóð og á árunum 1994 til 1996 stundaði hún nám við Mills College í Kaliforníu í Bandaríkjunum.  
Í verkum sínum veltir Anna fyrir sér ýmiskonar bilum, millirýmum og millibilsástandi. Hvað er það t.d. sem tengir vegg við rými eða það sem á sér stað í huganum við samræður? Hún reynir að kortleggja tengsl og samskipti sem eiga sér stað undir yfirborðinu, ástandið á milli svefns og vöku, skilin, hléið, landið á milli landa. Hugmyndir hennar snúast um hvernig við tengjumst öðrum í gegnum allskonar kerfi og mynstur t.d. fjarskiptakerfi, holræsakerfi, fjölskyldumynstur, vinnu, lög og reglur.   
Anna notar margskonar efni, aðferðir og framsetningu við listsköpun sína. Hún hefur m.a. unnið verk í samstarfi við aðra listamenn, notað texta, ljósmyndir, innsetningar, málað, teiknað og margt fleira.   
Anna Hallin hefur haldið sýningar á Íslandi, í Svíþjóð, Finnlandi, Austurríki, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar hérlendis og erlendis. Listasafn Íslands, Listasafn Kópavogs og Listasafn Reykjanesbæjar eiga verk eftir hana. Anna er félagi í SÍM, Sambandi íslenskra myndlistarmanna. 

Listaverk í Artóteki