Kristín Þorkelsdóttir

Kristín nam myndlist í Handíða- og myndlistarskólanum og útskrifaðist þaðan árið 1955. Hún starfaði við grafíska hönnun í áratugi en hóf feril sinn sem vatnslitamálari árið 1984 og hefur einkum málað landslagstengdar myndir með ljóðrænu ívafi. Einnig hefur Kristín fengist við portrettmyndir í ýmis önnur efni.

Landslagsmyndir sínar vinnur Kristín utandyra, hún ferðast um landið og færir það sem fyrir augu ber beint á pappírinn. Segir Kristín að hin upprunalega náttúra skipti sig æ meira máli, sú sem mótast af veðri, vindum og öðrum náttúruöflum. Einnig segir Kristín ,,Hér á Íslandi erum við stödd inni í gríðarmiklu margvíðu myndverki og ljósið er á stöðugri hreyfingu og skapar í sífellu nýjar myndkveikjur. Ég vil taka þátt í myndveislunni miklu" og ,,mála í hringrás tímans og fara á flug. Sjá hvernig birtan teiknar allt upp eða felur; hún breytist í sífellu og flöktir um. Ég mála úti við í síbreytilegu ljóshafinu og þarf stöðugt að velja hverju ég geri skil og hvernig. Skuggar koma og skuggar hverfa og breyta um stefnu. Hverri pensilstroku fylgir nýtt val því tíminn hefur liðið og breytt viðfangsefninu - kveikjunni. Mikilvægt finnst mér að þróa pensilskriftina með leik - ég á mikið og gott safn pensla og er ekki hrædd við þá og ég leyfi mér oft að láta þá dansa á pappírnum".

Fyrstu einkasýningu sína hélt Kristín árið 1985 í Gallerí Langbrók en einnig hefur hún sýnt í Hafnarborg, Listasafni Kópavogs - Gerðarsafni, Gallerí Nýhöfn og víðar. Einkasýningar hennar nú orðnar tuttugu talsins. Árið 2006 var stór yfirlitssýning á nýjum vatnslitaverkum og grafískri hönnun Kristínar í Listasafni Kópavogs, Gerðarsafni. Kristín hefur tekið þátt í öllum sýningum Akvarell Ísland auk fleiri samsýninga.

Á sviði grafískrar hönnunar er Kristín hvað þekktust fyrir hönnun íslensku peningaseðlanna.
Mörg söfn, opinberar stofnanir, félög, bankar og fyrirtæki um allt land og í Noregi og fleiri löndum eiga listaverk eftir Kristínu Þorkelsdóttur.