Listamannainnlit með Hildi Björnsdóttur
Hver er listamaðurinn?
Ég heiti Hildur Björnsdóttir, fædd og uppalin í Reykjavík en bjó mín fyrstu fjögur æviár í Þrándheimi í Noregi. Það kom ekkert annað til greina en að læra og stunda myndlist frá því að ég var krakki. Ég var í Myndlistaskóla Reykjavíkur í mörg ár samhliða grunnskólanámi, menntaskóla og Kennaraháskóla Íslands. Þar lærði ég teikningu, málun og keramikk, ásamt námskeiðum í Myndlista- og handíðaskólanum (MHÍ).
Árið 1987 flutti ég ásamt fjölskyldu minni til Oslóar í Noregi, þar ætluðum við að vera í þrjú ár, sem nú eru orðin rúmlega þrjátíu. Þar hef ég stundað listnám, framhaldsnám í myndmenntakennslu ásamt mörgum námskeiðum víða um heim. Í Noregi hef ég kennt myndmennt í mörg ár og verið leiðbeinandi fyrir nemendur í listnámi. Síðustu tvö ár hef ég starfað eingöngu sem myndlistarmaður og einbeitt mér að því að vinna með ljósmyndir í ýmis konar útfærslu og grafík ásamt innsetningum þar sem ég set öll skynfæri í gang.
Síðustu tíu ár hef ég haldið fleiri einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði erlendis og hérna á Íslandi. Ég kem alltaf reglulega til Íslands og er núna með einkasýningu í Gerðubergi sem ber heitið: Fjölþing. Sýningin hefur hún verið vel sótt en henni lýkur 4. júní. Í tengslum við sýninguna hef ég verið með listamannaspjall, verið gestur í Heimspekikaffi hjá Gunnari Hersveini og haldið smiðju fyrir nemendur.
Hvert sækir þú innblástur í verk þín?
Ég sæki gjarnan innblástur í verk mín í íslenska náttúru og togar hún bara æ sterkara til mín með árunum. Litirnir í náttúrunni, birtan, hreinar línur með víðan sjóndeildarhring, hið áþreifanlega og hin hráa stemning ásamt síbreytilegu veðri. Ég viðurkenni fúslega að maður verður sjálfsagt rómantískari gagnvart íslenskri veðráttu þegar maður býr erlendis.
Síðustu 10 ár hef ég líka verið mikill heimshornaflakkari og hef því einnig sótt innblástur þaðan. Á ferðalögum mínum hef ég öðlast nýja sýn og þekkingu með því að komast í kynni við fólk á öllum aldri, búa meðal þess og heimsækja staði sem margir bera merki um mannlega þjáningu og sögulega atburði. Ég leitast við að bjóða áhorfandanum í heimspekilegt ferðalag í listrænni úrvinnslu verkanna og markmiðið er að vekja upp margar spurningar um lífið sjálft.
Flestir ganga í gegnum erfiða lífsreynslu einhvern tíma á ævinni, spurning um hvenær og á hvern hátt. Þá er mikilvægt hvernig maður vinnur úr henni. Mín reynsla er sú að þá fer ég dýpra inn í hvert verkefni. Þá leitast ég við að einbeita mér að því að leita eftir fegurð í því sem getur verið viðkvæmt, erfitt, ógnandi, þrúgandi og/eða sorglegt. Ég er þakklát fyrir að geta unnið úr því á skapandi hátt og miðla því áfram.
Hvaða verkefni eða áhald til listsköpunar er í mestu uppáhaldi hjá þér?
Verkefni: Þegar ég finn lausnina á vandamálini í draumi eða í hugleiðslu.
Málun: Palettuhnífarnir og málning með litríkum litarefnum.
Ljósmyndun: Myndavélin mín.
Grafík: Álplötur og Akua Ink grafíklitir.
Innsetningar: „Fornebu gjenbruk“, verslun sem selur allt mögulegt af notuðum hlutum. Þar get ég skilað inn heilum hlutum eftir notkun og fengið inneignarkvittun til að nota í næsta skipti. Umhverfisvænt og skemmtileg leit af fjársjóðum.
Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?
Vinnustofa mín er eiginlega á mörgum stöðum þar sem ég vinn á ýmsum vettvangi. Ég vinn þó mest á vinnustofu minni í Noregi sem er í göngufæri frá mínu heimili. Það er gott að geta hreyft sig á leiðinni til að vakna og hugsa um verkefni dagsins. Þegar ég kem á vinnustofuna bý ég mér til kaffi eða te. Sest niður og horfi á það sem ég gerði deginum áður. Þegar ég er búin að ákveða hvað ég ætla að einbeita mér að vinna með fer ég í vinnusloppinn og set á músik. Mér finnst best að vinna með músik sem er án söngradda eða á tungumáli sem ég ekki skil þegar ég þarf að einbeita mér mikið. Síðan er skemmtilegast þegar maður kemst í flæði við að vinna með því að gleyma bæði stund og stað.
Ég vinn oftast með fleiri verkefni/myndir í einu til að geta hvílt sumar myndir þegar hugurinn segir stopp. Mig dreymir oft eða sé fyrir mér lausnir í hugleiðslu þar sem ég fer í jógatíma. Oft tek ég ljósmyndir af vinnslu dagsins til að geta litið á það frá svolítið öðru sjónarhorni og sé það þá í svolítið öðru ljósi.
Ég vinn flest verkefni á tölvunni heima hjá mér til að nýta tímann sem best í að framleiða verk á sjálfri vinnustofunni.
Hvað er framundan?
Í lok maí held ég til Noregs í „Art in Residency“ ásamt kollega mínum þar sem við munum dvelja í Kunstkvarteret í Lofoten. Þar verð ég í heilan mánuð og mun svo taka þátt í samsýningu í Svíþjóð í lok júní. Svo er ýmislegt í bígerð frá haustinu.
Skal það tekið fram að síðasta listamannaspjallið í tengslum við Fjölþing verður laugardaginn 5. maí kl. 14:00 og eru allir velkomnir!
Viðburðurinn á Facebook.