Skip to main content

Listamannainnlit með Guðrúnu Gunnarsdóttur

1.     Hver er listamaðurinn?

Ég heiti Guðrún Gunnarsdóttir og er fædd í Borgarnesi þar sem ég bjó til fjórtán ára aldurs, flutti þá í Vesturbæ Reykjavíkur. Ég er mikill Vesturbæingur þrátt fyrir að hafa flutt í Árbæinn fyrir fimmtán árum síðan. Ég stundaði nám í vefnaði í Kaupmannahöfn á árunum 1972-1975. Ég var á Haystack Mountain School of Crafts í Bandaríkjunum fyrir mörgum árum síðan og hef einnig dvalið á fjölmörgum vinnustofum víðsvegar um heim. 1996 var mér boðið að dvelja í Japan í 3 mánuði. Það var ógleymanleg reynsla, ég held að ég hafi fengið Japansveikina og er hrifin af öllu sem tengist Japan og japanskri fagurfræði. Ég var textílhönnuður hjá Álafossi, Foldu og fleiri ullarfyrirtækjum í mörg ár. Frá árinu 2012 hef ég unnið sem leiðsögumaður, meðfram því að stunda myndlistina.

Ég hef unnið við myndlist, hönnun og kennslu frá 1976 og haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga erlendis sem innanlands.

Í augnablikinu er ég að hugsa minn gang, líta yfir farinn veg og sjá hvert framhaldið verður. Ég mun ekki að taka þátt í sýningum svona alveg á næstunni. Það er ýmislegt í farvatninu, en erfitt að segja hvað úr því verður. Næstu mánuðir hjá mér verða þannig að ég hendist um landið með erlenda ferðamenn og sýni þeim landið eins og ég sé það, línur og þræðir hvert sem litið er og í leiðinni byrja ég að hugsa ný verk. Ég er oft lengi að vinna verkin í höfðinu áður en ég sest niður og hefst handa.

2. Hvert sækir þú innblástur?

Ég er mjög tengd náttúrunni á afstrakt hátt og fæ oft hugmyndir þaðan. Ég les mikið þannig að bókmenntir gefa mér ómeðvitað hugmyndir eða hughrif. Ég hef alltaf verið hrifin af ljóðum og ætlaði  einu sinni fyrir löngu að verða ljóðskáld, en í staðinn þá skálda ég í vírinn og þræðina sem verða á vegi mínum. Mig dreymir oft verkin sem ég er að vinna að og læt draumana ráða.

3. Hvaða verkfæri eða áhald til listsköpunar er í mestu uppáhaldi hjá þér?

Þetta er erfið spurning, puttarnir eru nú það verkfæri sem ég nota helst. Svo eru það víraklippurnar mínar og svo koma góðir vatnslitapenslar, ekkert er eins gefandi og að mála með góðum penslum á vatnslitapappír.

4. Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni.

Það vill svo til að ég er með vinnustofu heima þannig að ég byrja á því að fá mér kaffibolla sem ég rölti með inn á vinnustofu og svo taka við átökin við efnið og andann. Það fer mikið eftir því hvar ég er stödd í ferlinu hvernig ég nálgast vinnuna. Ef ég er stödd í miðju verki, þá sest ég niður og held áfram með vinnuna. Ef ég er að byrja á verki þá getur það tekið töluverðan tíma að finna flöt á því.

Ég bý oft til mína eigin þræði og það tekur tíma, oft og iðulega er ekkert að ganga upp, þá getur farið svo að ég eyðileggi allt og byrji upp á nýtt eða að ég sé eitthvað allt annað út úr því sem ég var byrjuð á að vinna og læt verkið ráða för. Hætti sjálf að stýra og leyfi þráðunum að vaxa villt í allar áttir. Stundum er ég ánægð eftir góðan vinnudag, stundum finnst mér allt frekar ömurlegt, en oft sé ég verkin í algjörlega nýju ljósi daginn eftir og er bara nokkuð ánægð með afraksturinn. Ég er oft marga mánuði að vinna verk, er að breyta og bæta. Ég er með góða veggi á vinnustofunni sem ég get notað eins og óskrifað blað, set verkin upp og held svo áfram að spinna eins og könguló.