Skip to main content
heida.jpg

Heiða Rúnarsdóttir hefur safnað listaverkum með hjálp Artóteksins í fjórtán ár. Fyrsta verkið sem Heiða eignaðist í gegnum Artótekið var reyndar fyrsta málverkið sem þau hjónin keyptu. Það verk heitir Slökun og er eftir myndlistarkonuna Ninný. „Við keyptum myndina í tilefni af fertugsafmælinu mínu,“ segir Heiða.

Heiða segir að þau geymi miðana aftan á verkunum, bæði vegna þess að þar komi fram upplýsingar um verkin en líka því það sé ánægjuleg áminning um myndlist á kjarakaupum. Hún tekur niður eina myndina úr forstofunni og á bakhliðinni kemur fram að þau hjónin greiddu þúsund krónur á mánuði, í tæp þrjú ár, til að eignast myndina. „Við þurftum ekki að neita okkur um mikið til að hafa efni á þessu,“ segir Heiða glaðlega um leið og hún hengir myndina aftur á sinn stað. „Við höfðum ekki mikið á milli handanna á þessum tíma, en langaði til að kaupa myndlist eftir íslenska listamenn, svo Artótekið var frábær leið fyrir okkur til að láta þann draum rætast.“

Heiða segir að þau hjónin fylgist bæði með á vefsíðu Artóteksins, en Hjálmar sé þó virkari ef eitthvað er. „Já, hann skoðar síðuna reglulega og svo er það yfirleitt þannig að ef ég vel eitt þá sér hann tvö til viðbótar,“ segir hún og hlær. Þegar þau hafa fundið verk þá gera hjónin sér ferð í miðbæinn til að skoða það. Heiða segir að þeim finnist mikilvægt að sjá verkið með eigin augum áður en þau taka lokaákvörðun, en þó hafi það ekki gerst hingað til að þau hætti við þegar á hólminn er komið.

Heiða og Hjálmar hófu að safna myndlist í gegnum Artótekið fyrir 14 árum og Heiða telur það hafa verið gæfuspor. „Það er mögulegt að fylla heimilið sitt af list, bara með því að taka lítil skref með Artótekinu.