Skip to main content

Ég heiti Louise/a  Djermoun, íslensk/frönsk/alsírsk myndlistarkona búsett í Frakklandi.

Ég er fædd og uppalin í Skerjafirðinum í Reykjavík en hef búið í Frakklandi meira og minna sl. 20 ár.  Ég er með B.A gráðu í Sjónlistum eða Les Arts Plastiques frá Panthéon-Sorbonne Paris 1 Háskóla og kennararéttindi frá LHI.

Frá námslokum hef ég ýmist starfað sem kennari, leiðsögumaður, móðir, kona, meyja og myndlistakona.

Undanfarin 15 ár hef ég verið að þróa sérstaka tækni þar sem ég nota eigin ljósmyndir (finnst það skipta miklu máli) í  forgrunn sem ég mála svo á striga. Ljósmyndirnar mínar eru aðallega teknar úti í náttúrunni. Ég hef alltaf skilgreint ljósmynda linsunana sem mitt þriðja auga. Náttúrumyndirnar vinn ég svo með í Photoshop eða öðrum myndvinnsluforritum til að fá „loka-mynd“ af nátturuforminu sem ég vil hafa á striganum.

Myndirnar mínar eru þríviðar þar sem ég nota mikið af upphleyptri textílmálningu (3D) til þess að fá þá áferð sem ég sækist eftir þ.e. Náttúran í nágvígi.

Náttúran og litir hafa alltaf verið aðal viðfangsefnið mitt þegar að myndlist kemur.

Allt frá því að ég var lítil stelpa í Skerjarfirðinum þá átti efnisáferð náttúrunnar, fjaran, sjórinn og grófu stráin hug minn allan.

Hvað liti varðar þá man ég eftir að tala um liti sem par eða pör.

Gulur og grænn voru par, blátt og rautt, bleikt og fjólublátt, appelsínugult og brúnt o.s.frv.

Ég segi því að mitt “sérsvið” séu litir og mitt þriðja auga fyrir efnisáferð úr náttúrunni.

Ég skilgreini mig sem Afstæðu-náttúrumyndlistarmann.

Ég hef tekið þátt í fjölmörgum sýningum í Frakklandi, oft fyrir Íslands hönd, m.a. í Montpellier, Marseille og París og svo einnig á Íslandi.

Um þessar mundir er ég mikið að vinna með hringform. Samkvæmt skilgreiningu um hringform er það form talið vera það fullkomnasta af öllum formum. Hringurinn táknar eilífðina þar sem hann hefur hvorki byrjun né endi.

P.s Fædd á Islandi og nefnd Louisa en samkvæmt þjóðskrá er ég Louise þar af leiðandi er ég Louise/a.

 

Listaverk í Artóteki