Skip to main content

Lóa Björk hefur haldið um 15 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga og ýmsri menningarstarfsemi hér á landi og víðs vegar um heiminn síðast liðin ár. Hún lauk mastersnámi í myndlist úr listaháskólanum ,,École Supérieure des Beaux Arts" í Frakklandi og lærði kvikmyndagerð í Paul Valéry háskóla í Montpellier. Hún kennir listgreinar auk þess að vera kennslustjóri Listnámsbrautar ME og vinnur að eigin myndlistarsköpun samhliða á  vinnustofu sinni, Réttinni í Sláturhúsinu á Egilstöðum. Hún var valin bæjarlistamaður Fljótdalshéraðs 2008 og hlaut nýverið viðurkenningu Menningarráðs fyrir þátttöku í 10 ára menningarsamstarfi milli Austurlands, N- Írlands og Vesturalen í Norður Noregi þar sem hún hefur verið gestalistamaður. Hún situr nú í stjórn SAM- félagsins, grasrótarsamtökum um skapandi greinar á Austurlandi.

Náttúruöflin er ein helsta uppspretta hugmynda í verkum Lóu. Hin sífellda hreyfing og umbreyting sem á sér stað í náttúrunni eru þeir meginþættir sem liggja til grunvallar verka hennar. Hún hefur unnið með ólíka miðla í myndlist sinni til þessa en þó aðallega með málverkið, ftast á óhlutbundinn hátt en með blandaðri tækni á pappír eða striga.