Listamaðurinn: Dagmar Agnarsdóttir
Hver er listamaðurinn Dagmar Agnarsdóttir?
Ég er málari, móðir og amma sem hefur alla tíð leitast við að muna og skrá – í myndum og/eða máli – það sem hrífur mig í veröldinni. Vandinn er kannski sá að svo margt hrífur mig að mér mun ekki endast ævina til að skrá það allt – en flest get ég munað og haldið áfram að njóta. Jú, svo er ég kraftlyftingakona – æfi reglulega og tek þátt í keppnum heima og erlendis.
Hvert sækir þú innblástur í verk þín?
Innblásturinn kemur úr umhverfinu. Hann sækir á mig þegar minnst varir – kannski er það fólk sem ég hef hitt, kannski staðir, kannski draumar, kannski fréttir. Ég skil ekki endilega alltaf hvað það er sem sækir að mér, en þegar ég stend fyrir framan auðan strigann fara hlutirnir að gerast. Stundun hratt, stundum hægt.
Ég á það sameiginlegt með mörgum öðrum myndlistarmönum að ég er treg til að lýsa stílnum; hann er einn í dag en annar á morgun þótt ákveðin mótív, aðferðir eða viðfangsefni dúkki upp aftur og aftur hvort sem ég mála natúralískt, abstrakt eða hvað sem það kann að vera og heita. Ég er þó sífellt að hugsa um fólk og tilveru þess, einstaklinga eða hópa; vonandi leyfist mér að kalla heildarmyndina af verkum mínum húmaníska.
Hvað var það sem fékk þig til þess að byrja mála?
Því er einfalt að svara: ég fékk loksins tíma til þess. Um aldamótin fluttumst við til Suðaustur Asíu vegna vinnu mannsins míns. Það byrjaði í Malasíu þar sem kynntist konum sem voru að fást við myndlist. Ég hafði lengi verið að gæla við þá hugmynd að reyna fyrir mér í myndlist og ákvað að fara í tíma með þessum konum. Þá fann ég sterklega hvernig gömul löngun blossaði upp í mér. Ég hafði haft gaman af því sem barn að teikna en eftir að ég fór að eiga börn sjálf og þurfti að vinna fyrir okkur, þá var öllu slíku lagt ofan í skúffu. En nú hafði ég tíma og tækifæri og fékk loks svigrúm til að læra og æfa mig. Ég tók þátt í einni eða tveimur sýningum í Kuala Lumpur og langaði að halda áfram.
Við fluttumst svo til Bangkok og þar fann ég fljótlega fleira fólk sem var að fást við myndlist og kennslu sem ég nýtti mér óspart. Þar tók ég þátt í nokkrum sýningum og hélt svo einar tvær einkasýning sem gengu mjög vel. Í Indónesíu var ég síðan nánast í fullu námi í Jakarta Institute of Fine Arts í rúmt ár, auk þess sem ég sótti einkatíma hjá indónesískum meistara, Teguh Ostenrijk. Þar hélt ég líka sýningar, bæði sjálf og með öðrum, og seldi talsvert af verkum. Loks fluttum við til Nairobi í Kenya þar sem ég hélt áfram að mála með og læra hjá kenískum listamönnum – og kenndi krökkum sem sóttu tíma í Nairobi Arts Centre. Þar hélt ég líka sýningu í stóru galleríi og seldi vel.
Alls staðar lærði ég heilmikið og sóttist í að vera með heimamönnum og tileinka mér þeirra aðferðir, enda held ég að þess sjái stað í því sem ég mála og teikna.
Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér?
Dagarnir eru yfirleitt aldrei nógu langir! Það gefst of sjaldan tími til að vera heilan dag á vinnustofunni og gera það sem mér finnst skemmtilegast og það sem mér finnst ég eigi og þurfi að gera til að rækta andann og sálina. Ég reyni þó að verja einhverjum hluta hvers dags á vinnustofunni, í vinnuherbergi heima eða með rissblokk uppi í sófa eða úti í garði, þegar vel viðrar. Skissurnar legg ég svo til hliðar – en rekst á þær aftur, kannski löngu síðar, og annað hvort held ég áfram með þær eða sé eitthvað sem gæti verið efniviður í mynd. Undirmeðvitundin heldur svo áfram eftir að ég er komin upp í rúm – og jafnvel sofnuð!
Hvernig hefur þinn stíll orðið til og þróast í gegnum tíðina?
Stíllinn – og viðfangsefnin - taka óhjákvæmilega mið af umhverfinu. Mest mála ég fólk – og yfirleitt með olíu en hef einnig fengist við vatnsliti, akrýl, tréristu og fleira – en hjá mér er yfirleitt fólk í fyrirrúmi og það umhverfi sem mótar fólk í daglegu lífi. Á síðustu árum hef ég svolítið fiktað við abstrakt – en maður þarf ekki að leita lengi til að finna fólk þar á sveimi og svo opna og villta náttúru – og auðvitað náttúru sem maðurinn hefur lagt undir sig og er kannski að eyðileggja.
Er eitthvað efni vinsælla en annað hjá þér sem þú hefur verið að vinna með?
Það væru þá kannski helst konurnar. Á ferðum okkar um Asíu og Afríku hef ég lagt mig fram um að kynnast konum sem við hittum og reyna að átta mig á þeim raunveruleika – eða óraunveruleika – sem þær búa við. Þegar heim er komið renna sumar þessar minningar í eitt og þá verður til mynd sem ég hafði síst átt von á.