Skip to main content
Aron Leví Beck

Aron Leví Beck var listhneigður og skapandi í æsku. Það var þó ekki fyrr en fyrir um það bil fimm árum sem hann fór að fást við myndlist af einhverri alvöru, „þegar óbilandi sköpunarþörfin læddist upp að honum“. Síðan þá hefur hann haldið fjölda sýninga og vakið töluverða athygli fyrir verk sín.  Við hittum Aron að máli á vinnustofunni og ræddum ferilinn, listina og verkin, sem sum hver er nú hægt að nálgast í gegnum Artótekið, listlánadeild Borgarbókasafnsins.

„Mér finnst spennandi að svona persónulegt verk, svona persónulegir hlutir sem ég skapa skuli í raun fá þann heiður að prýða veggi hjá fólki sem þekkir mig kannski ekki neitt,“ segir Aron, þegar hann er spurður hvernig sé að hugsa til þess að fólk geti leigt eða eignast verk eftir hann í gegnum Artótekið.

En hvað varð til þess að hann ákvað að vera með verk þar?

„Þegar ég uppgötvaði að í Grófinni væri sérstök listlánadeild, þar sem hægt er að leigja og kaupa verk eftir íslenska myndlistarmenn þá bara kolféll ég fyrir konseptinu,“ segir hann upprifinn.

Þar fyrir utan segist hann vera stórhrifinn af bókasöfnum.

„Ég og fjölskyldan mín erum tíðir gestir á bókasöfnum borgarinnar enda eru þetta frábærir staðir fyrir fjölskylduna. Þar er hægt að vera saman í rólegu umhverfi og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Síðan finnst mér persónulega bókasöfn vera mjög heillandi. Það er einhver elegans og festa í þessum bókasafnskúltúr sem er svo aðlaðandi. Einhver rómantík. Það er eins og gamli og nýi tíminn renni saman, eins og sést nú bara af því hvernig bókasöfnin eru farin að bjóða upp á alls konar spennandi hluti í gegnum netið; áhugaverða viðburði fyrir krakka og ungmenni, skapandi rými, áhugaverðar uppákomur og menningartengda þjónustu. Eins og Artótekið,“ nefnir Aron. „Mér þótti hugmyndin á bakvið það svo góð að mig langaði til þess að vera með.“

Frelsi í forgrunni

Í Artótekinu er hægt að nálgast fjöldann allan af verkum eftir Aron, mestmegnis borgarmyndir, en inn á milli slæðast abstrakt málverk. Sjálfur segist hann lengi hafa verið áhugasamur um borgarmál og skipulagsmál og af þeim sökum hafi miðbærinn orðið leiðarstef þegar hann byrjaði að mála. 

„Ég sæki mikið innblástur þangað og í Þingholtin,“ lýsir hann. „Ætli marglitu bárujárnshúsin séu ekki helsta ástæðan fyrir því. Litirnir eru svo sterkir og fjölbreyttir og tóna ekki endilega saman en þegar þeir eru settir í stærra samhengi þá verða þeir á einhvern undraverðan hátt svo fallegir.“ 

Aron tekur fram borgarmyndirnar séu ekki alls hugsaðar sem eftirlíking á veruleikanum. Þvert á móti. „Ég er ekki að mála þetta hús fyrir hús. Húsin eru ekki einu sinni í réttum hlutföllum. Ég set kannski inn þekkt kennileiti, Hallgrímskirkju eða Perluna, og vinn restina út frá minni og tilfinningu. Þannig að þú getur sýnt tveimur einstaklingum mynd og þeir eru hvor um sig vissir um að hún sé af sitthvorum staðnum á meðan hún er af engum sérstökum stað fyrir mér. Þetta gefur fólki töluvert frelsi til að staðsetja myndirnar.“

Lagði pensilinn á hilluna tíu ára

Aðspurður segist Aron hafa verið fjögur ár að móta stílinn og hann er stöðugt að leita leiða til að þróa hann áfram. „Mér finnst mikilvægt sem listamaður að prófa ný mótív og festast ekki í sama farinu. Ef mér finnst ég vera á réttri braut með tiltekið mótíf þá leyfi ég mér auðvitað alveg að staldra við og vinna með það. En almennt er ég duglegur að fylgjast með því sem er að gerast í kringum mig og leita að nýjum viðfangsefnum.“

Hvaðan kemur þörfin fyrir að mála? Var Aron listhneigður og skapandi í æsku?

„Ég tók þátt í myndlistasamkeppni hjá Tolla á einhverri edrú hátíð á Galtalæk þegar ég var tíu ára og lenti í öðru sæti, en lagði svo pensilinn á hilluna og snerti ekki á honum í mörg ár,“ segir hann og kímir.

„Nei, svona án gríns þá hef ég alltaf verið að skapa. Ég teiknaði mikið sem barn og var í tónlist á unglingsárunum. Það er hins vegar ekki fyrr en fyrir svona fimm árum sem ég fór að fást við myndlistina af einhverri alvöru.“

Og hvað varð til þess að Aron ákvað að hella sér út í myndlistina?

„Þetta var bara einhver innri köllun. Ég verð að skapa,“ játar hann hreinskilinn. „Tengdapabbi minn Davíð Art Sigurðsson er listmálari. Hann hefur verið að kenna myndlist og er ofboðslega góður og þolinmóður og hvetjandi kennari. Ég bað hann um að koma að mála með mér og ýta mér af stað. Þegar hann var búinn að því, að ýta bátnum úr vör, þá þurfti ekki mikið til,“ segir hann. „Og ég er enn á floti.“ 

Allt komið í einhvern súrrealískan hring

Áður en Aron lagði myndlistina fyrir sig hafði hann sem útskrifast málarameistari og unnið sem slíkur í mörg ár. Hann er líka menntaður byggingafræðingur og lagði stund á MS-nám í skipulagsfræði. Þegar Aron er spurður „hvað sé eiginlega málið með hann og hús og byggingar“ þá getur hann ekki varist brosi.

„Ég byrjaði ungur að mála hús og lærði að verða málari. Að því loknu fannst mér eðlilegt að læra að hanna og teikna hús. Þess vegna varð byggingafræði fyrir valinu. Síðan lá leiðin í skipulagsfræði, sem snýst um að hanna borgir og staðsetja hús og byggingar. Hún var einhvern vegin rökrétt framhald af hinu. Á miðri leið áttaði ég mig síðan á því að skipulagsmál snúast mikið um pólitík svo að ég skellti mér í hana og endaði í borgarstjórn,“ telur Aron upp. „Það var þá sem þessi köllun kom, að fara að mála hús aftur - en á striga. Svoleiðis að núna er þetta allt saman komið í einhvern súrrealískan hring.“

Hreyfiafl í samfélaginu

Eftir allt þetta brölt segist Aron vera þeirrar skoðunar að list sé, ekki síður en póltík, mikið hreyfiafl í samfélaginu. 

„Hún er það klárlega - og í ýmsum skilningi. Tökum sem dæmi spurninguna Hvar er nýja stjórnarskráin? Henni hefur verið varpað fram í list sem hefur vakið athygli og skapað umræðu og kannski leiðir það til einhvers. Spurningin sýnir að listafólk getur verið mjög pólitískt og vakið fólk til umhugsunar um ýmsa hluti og kallað fram sterk viðbrögð,“ bendir hann á. 

„Eins getur listfólk látið gott af sér leiða með list sinni. Tónlistarfólk sem spilar og syngur fyrir langveik börn eða myndlistarmenn sem halda uppboð á verkum sínum þar sem allur ágóði rennur til Úkraínu, svo dæmi séu tekin. Listgreinarnar eru margar og aðferðir við að „fremja“ list fjölbreyttar og ég held að allir verði einhvern tímann fyrir áhrifum hennar, meðvitað eða ómeðvitað. Þannig að já, list er mikið hreyfiafl.“

Mikilvægt að list sé aðgengileg

Með hliðsjón af áðursögðu segist Aron vera hrifinn af hinu yfirlýsta markmið Artóteksins að kynna notendum Borgarbókasafns og öðrum íslenska samtímalist. Þarna sé verið að gera list aðgengilega fleira fólki og gefa því kosta að leigja listaverk eða eignast þau með öðrum hætti en hafi kannski tíðkast. 

„Mér finnst bara mjög mikilvægt að þessi valkostur sé í boði. Ég held nefnilega að margir misskilji myndlist og þori ekki að skoða hana af því þeir telja sig ekki hafa nógu mikið vit á henni til þess að geta notið hennar. Halda að myndlist sé bara fyrir einhverja elítu, sem er auðvitað bara algjört rugl. Það er að minnsta kosti eitthvað sem ég vil ekki sjá,“ segir Aron með þungri áherslu. „Myndlist á vera fyrir alla.“ 

Hann bendir á að fyrir utan það sé allt eða flest listafólkið sem eigi verk í Artótekinu starfandi listafólk og það hafi lagt heilmikið í listina sína. Þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þarna. 

„Já, Artóktekið er bara ótrúlega flott framtak.  Frábær tenging á milli myndlistarmanna og almennings,“ segir hann og brosir.