Skip to main content

Gíslína Dögg Bjarkadóttir (1975) er fædd og uppalin á Akureyri, en hefur búið í Vestmannaeyjum síðan 2006.  Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2004 í textíl- og fatahönnun og hefur einnig lokið kennsluréttindum í listgreinum fyrir grunn- og framhaldsskóla.  Gíslína hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hérlendis og erlendis og haldið nokkrar einkasýningar hérlendis.  Hún var útnefnd bæjarlistamaður Vestmannaeyja árið 2014. Gíslína er félagsmaður í SÍM og ÍG. 

Í verkum sínum hefur Gíslína aðallega verið að vinna með konur og vísa þá verk hennar til þeirra fjölmörgu kvenna, sem í gegnum aldirnar hafa unnið sín mikilvægu störf í hljóði – segja má að um sé að ræða óð til allra þeirra nafnlausu kvenna sem sköpuðu söguna, listina og lífið.  Þessar konur tengdu lífskeðju kynslóðanna saman, lifðu sem nafnlausar hversdagshetjur og eru gleymdar flestu fólki í dag.  Frá árinu 2018 hefur Gíslína einbeitt sér meira að grafíkinni, en þó hefur málverkið átt stóran sess í verkum hennar í gegnum tíðina auk þess sem hún hefur verið með innsetningar og gjörningurinn „365 kjólar“ stóð yfir í heilt ár sem endaði með uppboði og var ágóðinn notaður til að koma á laggirnar heimasíðu í tengslum við brjóstakrabbamein.
Ennþá eru konur fyrirferðamestar í verkum Gíslínu þó náttúran komi einnig við sögu. Munstur, sem byggja á munstrum Sigurðar Guðmundssonar er einnig áberandi í verkum Gíslínu, en hún leikur sér reyndar að munstrunum, breytir þeim og fer með þau lengra.  Þessi munstur tengjast einmitt konum þátíðarinnar sterkum böndum, því flest þeirra má finna í bróderingum í þjóðbúningum kvenna.

 

Listaverk í Artóteki