Skip to main content

Guðmunda Kristinsdóttir á að baki myndlistarnám frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands auk námskeiða á Íslandi, Danmörku og Ítalíu.
Hún hefur sýnt víða sl. tólf ár m.a. árið 2015 í Anarkíu listasal og Turninum í Kópavogi og í Listasal Mosfellsbæjar árið 2013. Guðmunda er einnig myndlistarkennari.
Vinnustofa Guðmundu er ART 11, Auðbrekku 4 í Kópavogi.

Verk Guðmundu eru einkum málverk á striga og notar hún þá aðallega olíuliti ásamt ýmsum öðrum efnum svo sem eldfjallaösku.
Um verk Guðmundu segir Bjarni Sigurbjörnsson: ,,Í málverkum Guðmundu er sterk tenging við óbeislaða náttúru, þau náttúruöfl sem okkur Íslendingum eru svo hugleikin, þar sem frumkraftar takast á. Umbrot og óstöðugleiki, djörf litabeiting í bland við ábúðarmikla áferð skapa málverk sem kalla fram í hugann hraun, eldgos, jökla, grimmt hafið eða þrumandi himin. En það er ekki bara hið stórskorna í náttúrunni sem áhorfandinn mætir, heldur einnig hið smágerð? Það sem birtist á léreftinu eru átök málarans við sjálfan sig og hliðstæða sífelldra átaka náttúraflanna. Þannig verður málverkið einkonar minni útgáfa hinnar síkviku náttúru sem við lifum með og í. Efnisnotkun Guðmundu er áhugaverð fyrir frumlega útfærslu óvanalegra efna sem blandað er í olíulitinn, allt frá ösku til pappírs. Þetta opnar nýja vídd til túlkunar verkanna þar sem þessi aðskotaefni hlaðast merkingu um leið og þau skapa ótrúlega margslungna áferð. Þótt náttúran sé alltumlykjandi í málverkum Guðmundu er þar ekki um að ræða landslagsmálverk, heldur verk sem krefjast sjálfstæðrar tilvistar án þessa að falla í grýfju sýndarleiks eða eftirmyndagerðar. Þetta eru umbúðalaus, kröftug verk sem krefjast þess sama af áhorfandanum."    

Heimasíða

Listaverk í Artóteki