Skip to main content

María Rún Þrándardóttir (1995) býr og starfar í Reykjavík. María hefur víðtækan bakgrunn í dansi og tjáir tilfinningar sínar með beitingu líkamans. Verkin hennar hafa ljóðrænan samhljóm og eru oft á tíðum í formi gjörningalistar, þótt hún vinni einnig í aðra miðla til dæmis vídeó, teikningu, ljóðlist, málverk og innsetningar. María hefur mikinn áhuga á vísindum, sér í lagi er snúa að náttúrunni og umhverfismálum.

 

María Rún lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2019. Sama ár lauk hún starfsnámi hjá Kristínu Gunnlaugsdóttur listakonu og starfsnámi á Feneyjartvíæringnum hjá Hrafnhildi Arnardóttur (Shoplifter) og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Árið 2022 útskrifaðist hún með Meistaragráðu í Umhverfisbreytingum á Norðurslóðum frá Helsinki Háskóla. 

 

María hefur tekið þátt í ýmsum sýningum, bæði hérlendis og erlendis. Þar ber helst að nefna einkasýningu hennar Hverfandi hjá Kling og Bang árið 2020. Í tengslum við meistaraverkefni sitt 2022, hélt hún einnig þrjár einkasýningar í Reykjavík og Helsinki sem samtvinnuðu áhugasvið hennar í myndlist og vísindum. Árið 2023 tók hún þátt í vinnustofudvöl og samstarfsvettvangi fyrir listamenn og vísindamenn í Melbu, Lofoten í Noregi. 

 

María Rún er félagi í Sambandi íslenskrar myndlistar, Höggmyndafélaginu og Grósku myndlistarfélagi.

Listaverk í Artóteki