Skip to main content

Nína Gautadóttir

Nína Gautadóttir er fædd og uppalin á Íslandi en hefur frá árinu 1970 að mestu búið í París í Frakklandi. Hún dvaldi í Afríku (Nígeríu, Kamerún og Zaire) í nokkurn tíma og vann þar m.a. með leður. Nína notar ýmis efni og fjölbreyttar aðferðir við vinnu sína. Hún málar, tekur ljósmyndir, vinnur með textíl og vakti m.a. sýning hennar ofnum veggteppum mikla athygli árið 1980 á Kjarvalsstöðum. Einnig hefur Nína sýnt skúlptúra og margt fleira. Um þessar mundir eiga málverk og textíll huga Nínu.Nína á að baki langt nám á ýmsum sviðum. Árið 1976 lauk hún námi í málun frá Listaháskólanum í París en auk þess er hún lærður hjúkrunarfræðingur og hefur unnið við fagið með hléum. Hún stundað nám í fornegypsku, er með DEA próf í sálgreiningu frá Parísarháskóla og árið 2008 lauk hún námi í Leiðsöguskólanum í Kópavogi.

Samsýningar sem Nína hefur tekið þátt í eru fjölmargar og einkasýningar hennar á þriðja tug. Flestar hafa þær verið í Frakklandi og á Íslandi en einnig hélt hún sýningar þegar hún bjó í Afríku.Nína hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir list sína m.a. verðlaun frá Parísarborg, Aþenuborg og fl. Hún hefur fengið listamannlaun frá íslenska og franska ríkinu. Listaverk efir Nínu eru í eigu Listasafns Parísarborgar, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Kópavogs, Listasafns Ísafjarðar auk ýmissa fyrirtækja og stofnanna

Listaverk í Artóteki