Skip to main content

Sigríður nam myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1985-89 og í Ecole des Beux Arts de Lyon 1990-92 og lauk þaðan námið með Diplom DNAP gráðu. 
Sigríður hefur haldið 7 einkasýningar var sú síðasta í Listasafni Kópavogs Gerðarsafni árið 2001 og nefndist hún Fjölskyldumyndir.  Er ekki allt gott að frétta? var heiti einkasýningar hennar árið 1998 í Listasafni ASÍ.  Sigríður hefur tekið þátt í ýmsum samsýningum frá því að hún lauk námi og m.a. hefur hún verið félagi í Gullna penslinum sem á undanförnum árum hefur sýnt víða, m.a. í Listasafni Reykjavíkur Kjarvalsstöðum, á listahátíð í Færeyjum, í húsnæði norrænu sendiráðana í Berlín og fleiri stöðum.    Sigríður hefur starfað hjá Listasafni Reykjavíkur, Menningarmiðstöðinni Gerðubergi og Listasafni Kópavogs.  
 

Á síðustu árum hefur Sigríður haft hópmyndina að viðfangsefni og í kynningarbæklingi Artóteksins um Sigríði, segir Ragna Sigurðardóttir myndlistargagnrýnandi m.a.: ,,... Hópmyndirnar gerðu innrás sína á striga málaranna þegar á fimmtándu öld og á endurreisnartímanum á næstu öldum birtust fjölmargar samsetningar ýmissa hópa á myndfletinum ...Hópmyndin er einnig viðfangsefni Sigríðar en í dag eru breyttir tímar, málverkið gegnir ekki skrásetningarhlutverki því sem það gerði fyrir tíma ljósmyndatækninnar. Engu að síður er forvitnilegt að velta fyrir sér snertiflötum á þessum hópmyndum úr samtímanum og verkum fyrri alda. Það sem sameinar er fyrst og fremst hinn mannlegi þáttur, innbyrðis tengsl persónanna á myndfletinum hvort sem um er að ræða valdabaráttu, ást, yfirborðsleg tengsl samstarfsfólks eða innileika fjölskyldu. ..."

Listaverk í Artóteki